Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 385 . mál.


Sþ.

1154. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 vegna kjarasamninga í febrúar 1990.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.



    Frumvarpið kom til umræðu í sameinuðu þingi 12. mars sl. og var vísað til nefndarinnar að lokinni þeirri umræðu. Nefndin kallaði til viðræðna fulltrúa frá fjármálaráðuneyti þar sem óskað var sérstaklega eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvort ákvarðanir hefðu verið teknar um aukin útgjöld umfram fjárlög árið 1990 sem ekki væri gert ráð fyrir í frumvarpinu. Enn fremur var óskað eftir að fjármálaráðuneytið legði fyrir nefndina tillögur um lækkun ríkisútgjalda á árinu 1990 samkvæmt heimildaliðum 6.15 og 6.20 í 6. gr. fjárlaga. Að lokum var óskað eftir að gerð yrði grein fyrir áhrifum breyttra verðlagsforsendna eftir kjarasamninga á ríkisfjármál árið 1990. Þá komu á fund nefndarinnar forstjóri Þjóðhagsstofnunar ásamt starfsmönnum hennar og gerðu þeir grein fyrir breyttum þjóðhagshorfum í kjölfar kjarasamninganna frá því í febrúar sl. Nefndin óskaði eftir því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti legði fram sundurliðun á tillögum um lækkun stofnframlaga til sjúkrahúsa og læknisbústaða. Þá var óskað eftir því við samgönguráðuneytið og Hafnamálastofnun að þau veittu upplýsingar um tillögur sínar um lækkun framkvæmdaframlaga vegna hafnamála.
    Fjárveitinganefnd bárust umbeðnar upplýsingar og í framhaldi af því tók meiri hluti fjárveitinganefndar ákvörðun um að leggja til að veitt yrði 25 milljóna króna framlag til endurgreiðslu gjalda í landbúnaði vegna niðurgreiðslu fóðurs í loðdýrarækt, en vegna mistaka var ekki gert ráð fyrir þessu framlagi í fjárlögum ársins 1990. Til viðbótar þessu framlagi til loðdýraræktar hefur ríkisstjórnin samþykkt að verja 12 milljónum króna á árinu 1990 af fjárlagaliðnum óskiptum til ráðstöfunar fyrir ríkisstjórnina. Þá verða rekstrarframlög til Ríkisspítala hækkuð um 147 milljónir króna þar sem í ljós hefur komið að rekstrarumfang Ríkisspítala var vanmetið við fjárlagagerð 1990. Nefndin fjallaði um nokkur óvissumál sem gætu komið til útgjalda hjá ríkissjóði umfram það sem nefnt er hér að framan. Þar er fyrst að telja tjónakostnað vegna náttúruhamfara á Suðurlandi í byrjun þessa árs. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að efna til útboðs vegna framkvæmda í tengslum við náttúruhamfarirnar sem auglýst hefur verið. Endanleg tilboð liggja ekki fyrir þannig að ekki er vitað hversu hár þessi kostnaður verður, en viðlagatrygging kemur m.a. til með að bera hluta kostnaðarins. Þá er til ráðstöfunar nokkur fjárhæð á fjárlögum þessa árs vegna sjóvarnargarða sem ráðstafa má til þessa verkefnis. Það sem á vantar hefur ríkisstjórnin lýst yfir að hún muni mæta með ráðstöfunum á framlögum undir liðnum óskipt vegna tjónabóta í fjárlögum og verði um frekari fjárþörf að ræða mun ríkisstjórnin leggja til við afgreiðslu fjáraukalaga í haust að henni verði þá sinnt.
    Við afgreiðslu fjáraukalaga nr. 111/1989, sem var til afgreiðslu á Alþingi í desembermánuði sl., kom fram að rekstrarafkoma Flugmálastjórnar var verulega slæm og fjárvöntun umtalsverð. Í framhaldi af þeim viðræðum sem fjárveitinganefnd átti við samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn um þetta mál var ákveðið að ráðuneytið, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, ásamt starfsmönnum Flugmálastjórnar, mynduðu vinnuhóp til að gera tillögur um lausn á þeim rekstrarvanda sem er hjá Flugmálastjórn. Fjárveitinganefnd kallaði eftir niðurstöðu vinnuhópsins, en starf vinnuhópsins hefur orðið nokkru tímafrekara en gert var ráð fyrir og liggja ekki fyrir niðurstöður af þeirri vinnu nú, en vinnuhópurinn mun skila niðurstöðum á næstu vikum. Af þessum sökum verður frekari ákvörðun um þetta mál að bíða til fjáraukalaga á komandi hausti.
    Til afgreiðslu á Alþingi er tillaga til þingsályktunar um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum. Í þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir að framkvæmdir við jarðgangagerð á Vestfjörðum geti hafist á árinu 1991. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að hraða öllum undirbúningi verksins á árinu 1990 og til þess þarf að verja allt að 47 milljónum króna sem teknar yrðu að láni og leitað eftir lántökuheimild við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1990 á komandi hausti. Meiri hl. fjárveitinganefndar gerir hins vegar tillögur um breytingar á þingsályktunum um vegáætlun þar sem gert er ráð fyrir þessum tilkostnaði á árinu 1990 sem er samfara breyttum verkhraða við jarðgangagerð á Vestfjörðum.
    Á þingskjali 1167 er gerð grein fyrir þeim framlögum sem nú er gert ráð fyrir að verja til byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða og til hafnarmannvirkja en meiri hl. samþykkir tillögur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Hafnamálastofnunar óbreyttar um lækkun þeirra framlaga.
    Fjármálaráðuneytið lagði fyrir nefndina tilögur sínar um lækkun ríkisútgjalda samkvæmt heimildum í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1990, liður 6.15 og 6.20. Tillögur um lækkun eru að fjárhæð 160 milljónir króna en í fjárlögum 1990 er gert ráð fyrir allt að 300 milljóna króna niðurskurði. Fjárveitinganefnd gafst ekki tími til að afgreiða tillögur fjármálaráðuneytis nú en mun taka málið til afgreiðslu síðar.
    Að lokum leggur meiri hl. nefndarinnar til að fyrirsögn frumvarpsins verði breytt og það verði nefnt „Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1990“ þar sem frumvarpið fjallar um fleiri atriði en tengjast beint kjarasamningum frá því í febrúar sl.
    Á fylgiskjali er greinargerð hagdeildar fjármálaráðuneytis um verðlagshorfur 1990 í kjölfar kjarasamninganna og áhrif þeirra á fjárlagaforsendur launa- og verðlagsmælikvarða.
    Nánari grein verður gerð fyrir breytingum tillagna meiri hl. fjárveitinganefndar í framsögu, en meiri hl. fjárveitinganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fyrir koma á þingskjali 1167.

Alþingi, 2. maí 1990.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir,


fundaskr.


Alexander Stefánsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Ásgeir Hannes Eiríksson.






Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið, hagdeild:


Verðlagshorfur í kjölfar kjarasamninganna.


(Vinnuskjal 19. mars 1990.)



    Nýgerðir kjarasamningar breyta nokkuð verðlags- og launaforsendum fjárlaga fyrir árið 1990. Þannig var við afgreiðslu fjárlaga miðað við að verðlag hækkaði um 16–17% að meðaltali milli áranna 1989 og 1990, verð á erlendum gjaldeyri um 13% og laun um 11%. Forsendur kjarasamninganna fela í sér um 2% minni verðlags- og launabreytingar en fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins hækkar vísitala framfærslukostnaðar um 15% að meðaltali á þessu ári. Hækkunin innan ársins er mun minni eða um 7,5%. Þessi spá er byggð á sömu meginforsendum og nýgerðir kjarasamningar. Að öllu forfallalausu má því gera ráð fyrir að árshraði verðbólgunnar miðað við þriggja mánaða breytingar verði kominn niður fyrir 10% um mitt þetta ár og jafnvel niður í 5–6% í árslok.
    Eins og þessar tölur bera með sér eru frávikin frá fjárlagaforsendum svipuð bæði á launa- og verðlagsmælikvarða, en í því felst að kaupmáttarþróun er svipuð og reiknað var með í fjárlögum.
    Kaupmáttur dagvinnulauna mun samkvæmt þessari spá minnka um 2% frá upphafi til loka þessa árs eða um 0,5% minna en fjárlög gerðu ráð fyrir. Á fjárlögum var gengið út frá 5,5% kaupmáttarrýrnun að meðaltali milli áranna 1989 og 1990. Nýgerðir kjarasamningar breyta engu um þessa forsendu, enda er þessi kaupmáttarrýrnun að mestu komin fram nú þegar þannig að kaupmátturinn ætti samkvæmt spánni að haldast óbreyttur út árið.
    Samkvæmt þessari spá mun verðlags- og launaþróun að mestu haldast innan viðmiðunarmarka kjarasamninganna. Lækkun nafnvaxta kann að leiða til minni verðhækkunar en hér er spáð. Á móti vegur að það kann að taka nokkurn tíma að útrýma öllum fylgifiskum þrálátrar verðbólgu sem legið hefur á bilinu 20–30%
í langan tíma. Þess vegna er ekki útilokað að það komi fram einhver verðhækkunartilefni á næstu mánuðum sem ekki er beinlínis gert ráð fyrir í spánni.

Frávik verðlags og launa frá forsendum fjárlaga 1990.



              Forsendur    Endurskoðaðar
             fjárlaga    forsendur    Mismunur
             %     %     %

1. Vísitala framfærslukostnaðar
    Meðalhækkun         16,5–17,0    15,0-2,0
    Frá upphafi til loka árs         10,5    7,5-2,5

2. Innflutningsgengi
    Meðalhækkun         13,0    12,5-0,5
    Frá upphafi til loka árs         6,0    0,0-6,0

3. Dagvinnulaun
    Meðalhækkun         11,0    8,5-2,0
    Frá upphafi til loka árs         7,5    5,5-2,0

4. Kaupmáttur dagvinnulauna
    Meðalhækkun         -5,5    -5,50,0
    Frá upphafi til loka árs         -2,5    -2,0+0,5